Erlent

Fagnaðarlæti við komu Bhutto til Pakistans

Þórir Guðmundsson skrifar

Þúsundir manna fögnuðu Benasír Bhutto við heimkomuna til Pakistans, eftir átta ár í útlegð. Benasír Bhutto hefur verið í sjálfskipaðri útlegð í Bretlandi síðan 1999. Hún hyggst leiða flokk sinn, Þjóðarflokk Pakistans, í kosningabaráttu á næstunni.

Bhutto hefur tvisvar áður verið forsætisráðherra og nýtur mikillar hylli í heimalandinu, eins og sjá mátti við komu hennar til Karachi í morgun.

Talið er að Bhutto hafi náð samkomulagi við Pervez Musharraf forseta um að þau muni deila með sér völdum, hann sem forseti og hún sem forsætisráðherra, nái hún meirihluta á þingi í janúar.

Þessi samvinna Musharrafs og Bhutto er þeim mun merkilegri, að herinn, sem hann hefur stýrt síðustu árin, lét taka föður hennar, Zulfikar Ali Bhutto, af lífi árið 1979. Öfgahópar múslima hafa hótað henni lífláti, enda er Bhutto holdgervingur þeirrar stefnu að stýra þessu 170 milljóna manna múslimaríki í átt til aukins frjálsræðis og samvinnu við vestræn lýðræðisríki.

Lögregla lokaði öllum götum sem hún átti að aka eftir frá flugvellinum og sprengjuleitarsérfræðingar hafa farið yfir öll svæði sem hún kemur nálægt. Hún ætlaði fyrst að fara að gröf Jinnah, stofnanda Pakistans, fimmtán kílómetra leið sem búist er við að taki bílalest Bhuttos mestallan daginn að aka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×