Erlent

Cheney deilir hart á demókrata vegna Íraksfrumvarps

George Bush Bandaríkjaforseti og Dick Cheney varaforseti skiptust á hörðum skotum við demókrata í dag í tengslum við frumvarp um aukafjárveitingu fyrir Íraksstríðið.

Sakaði Cheney leiðtoga demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings, Harry Reid, um að reyna að stuðla að slæmu gengi hersins í Írak til þess að tryggja demókrötum aukið fylgi í forsetakosningunum á næsta ári.

Bush hefur undanfarnar vikur deilt við meirihluta demókrata á þingi um frumvarp um aukafjárveitingu til Íraksstríðsins en demókratar eru leggja lokahönd á það. Þar er gert ráð fyrir að byrjað verði að kalla bandaríska hermenn heim frá Írak í byrjun október á þessu ári, jafnvel fyrr ef íröksk stjórnvöld ná ekki tökum á ástandinu í landinu, og að brottflutningi hermanna verði lokið fyrir marslok á næsta ári.

Bush ítrekaði í dag að hann myndi beita neitunarvaldi gegn slíku frumvarpi enda er hann algjörlega andvígur því að settar séu inn áætlanir um brottflutning hermanna í frumvarpið.

Reynt er að miðla málum milli forsetans og demókrata og mun yfirmaður bandaríska heralfans í Írak, David Petraeus hershöfðingi, ganga á fund þingmanna á morgun og greina frá því hvernig gangi að ráða niðurlögum uppreisnarhópa í landinu. Vonast repúblikanar til þess að hann sannfæri demókrata um að breyta stefnu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×