Erlent

Jarðsunginn í heimabæ sínum í dag

Fyrrverandi og núverandi ráðamenn Á myndinni má meðal annars sjá George W. Bush forseta og Lauru eiginkonu hans, Dick Cheney varaforseta og þrjá fyrrverandi forseta, þá George Bush eldri, Bill Clinton og Jimmy Carter.
Fyrrverandi og núverandi ráðamenn Á myndinni má meðal annars sjá George W. Bush forseta og Lauru eiginkonu hans, Dick Cheney varaforseta og þrjá fyrrverandi forseta, þá George Bush eldri, Bill Clinton og Jimmy Carter. MYND/AP

Meira en þrjú þúsund manns voru viðstaddir viðhafnarútför Geralds Fords, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem haldin var í dómkirkjunni í Washington í gær.

Meðal gestanna var Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra ásamt öðrum fulltrúum erlendra ríkja.

Líkkista Fords hafði í tvo daga legið á viðhafnarbörum í hvelfingu bandaríska þinghússins í Washington þar sem ættingjar hans og fyrrverandi jafnt sem núverandi ráðamenn Bandaríkjanna vottuðu hinum látna virðingu sína.

Ræður við útförina héldu George W. Bush forseti, Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra, og Tom Brokaw, fyrrverandi fréttaþulur NBC-sjónvarpsstöðvarinnar.

Eftir athöfnina í Washington í gær var kista Fords flutt til bæjarins Grand Rapids í Michigan, þar sem hann ólst upp. Þar verður hann borinn til grafar í dag að lokinni smærri athöfn fyrir nánustu ættingja og vini.

Ford tók við forsetaembættinu árið 1974 þegar Richard Nixon hrökklaðist frá völdum vegna Watergate-málsins. Ford tapaði síðan forsetakosningum fyrir Jimmy Carter rúmlega tveimur árum síðar.

Ford lést á heimili sínu í Kaliforníu 26. desember síðastliðinn, 93 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×