Nýkjörinn leiðtogi Bandalags demókrata í Suður-Afríku, Helen Zille, neitaði því í dag flokkur hennar sé of hvítur og of miðstéttarsinnaður. Zille, sem er borgarstjóri í Höfðaborg, sagði að minnsta kosti helmingur þeirra sem kusu hana sem leiðtoga í gær hefðu ekki verið hvítir. Hún segir ásakanirnar vera áróður ANC flokksins, sem er við völd í Suður-Afríku.
Stærsta áskorun Bandalagsins er að laða til sín svarta kjósendur. „Við erum ekki hvítur flokkur." sagði hún í samtali við Afríkudeild BBC. „Það eru margir stjórnarandstöðuflokkar í Suður-Afríku sem hafa svarta leiðtoga og svarta þingmenn en þeir hafa tapað fylgi í hverjum kosningum á fætur öðrum. Við njótum meira fylgis á meðal svartra en þeir."
Zille var blaðamaður áður fyrr og barðist gegn aðskilnaðarstefnunni á árum áður. Eftir það gat hún sér gott orð fyrir að starfa sem þingmaður eins fátækasta hverfisins í Höfðaborg, Khayelitsha.
Á síðasta ári var hún kjörinn borgarstjóri Höfðaborgar og hefur síðan átt í hörðum bardögum við forvígismenn ANC flokksins. Bandalag demókrata er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn í Suður-Afríku en nýtur þrátt fyrir það aðeins 12 prósent fylgis.
Fréttavefur BBC skýrði frá þessu í dag.