Enski boltinn

Ekkert varð af golfinu hjá Ferguson

NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson sagðist á laugardaginn vel geta hugsað sér að fara í golf frekar en að horfa á leik Arsenal og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni. Jafntefli liðanna þýddi að Manchester United tryggði sér titilinn og Ferguson viðurkennir í samtali við Independent að hann hafi horft á síðustu 15 mínúturnar í leiknum. Hann segist hafa verið með hjartað í munninum af spennu.

Ferguson hafði hugsað sér að fara til Spánar til að fylgjast með Gerard Pique sem leikur sem lánsmaður frá United hjá Zaragoza. Ekkert varð af því og sá gamli skellti sér heldur á úrslitaleik þar sem barnabarn hans var að spila og sigraði. "Þetta var góð tvenna hjá okkur í deildinni," sagði Ferguson ánægður. Hann sagði að eftir leikinn hafi sér farið að leiðast svo hann ákvað að kveikja á sjónvarpinu. Þar sá hann síðustu 15 mínúturnar í leik Arsenal og Chelsea þar sem gestirnir háðu hetjulega baráttu og hótuðu að stela sigrinum.

"Ég horfði á síðasta korterið í leiknum að það var algjör pína. Ég var bókstaflega með hjartað í kjaftinum. Chelsea spilaði vel og liðið á heiður skilinn fyrir frammistöðuna," sagði Ferguson og bætti við að forgangsröðin væri önnur hjá sér í dag en hún var fyrir nokkrum árum.

"Fyrir nokkrum árum var ég með þráhyggju fyrir því að sigra í Meistaradeildinni en nú þykir mér mikið merkilegra að vinna deildina. Það er tvímannalaust deildin sem skiptir mestu máli, en ég neita því ekki að ég hefði ólmur vilja spila úrslitaleikinn í Aþenu," sagði Ferguson og bætti við að sigurinn í deildinni nú væri einstaklega sætur í ljósi yfirburða Chelsea síðsutu tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×