Erlent

Ungdomshuset á bak og burt

Þetta hús er nú horfið
Þetta hús er nú horfið Getty Images

Ungdomshuset er á bak og burt. Við heimilisfangið Jagtvej 69 er nú ekkert annað en steypubrot á húsgrunni en framhlið hússins var það síðasta sem rifið var niður snemma í morgun. Talsmaður Kaupmannahafnarlögreglunnar segir að þó ekkert sé eftir af húsinu muni lögregla enn vakta svæðið næstu sólarhringa. Þó er búist við því að lífið á Norðurbrú muni mjög fljótlega fara að ganga sinn vana gang. Talsmaðurinn segist vonast til þess að hægt verði að hleypa umferð um Jagtvej aftur sem fyrst, enda gatan mikilvæg umferðaræð á þessu þéttbýla svæði.

Stuðningsmenn Ungdomshússins hafa boðað frekari mótmæli næstu daga en lögregla reiknar með því að þau verði friðsamleg eins og þau hafa að mestu verið undanfarna daga. Þó verður áfram mikill viðbúnaður lögreglu og of snemmt að senda heim aukalögreglulið frá Fjóni og Jótlandi. Þá verða lögreglubílar sem Kaupmannahafnarlögreglan fékk lánaða frá kollegum sínum í Svíþjóð áfram tiltækir.

Á næstu 6-12 mánuðum mun söfnuðurinn Faderhuset, sem á lóðina við Jagtvej 69 skipuleggja hvað á að rísa þar en líklega verður það einhvers konar samkomuhús á vegum safnaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×