Erlent

Níu látnir í átökum í Mjanmar

Herinn í Mjanmar réðst gegn andófsmönnum í dag með þeim afleiðingum að níu menn, að minnsta kosti, létu lífið og fjöldi manns særðist. Hermenn í óeirðabúningi standa vörð við gaddavírsgirðingar á götum stærstu borgar landsins og heyra mátti skothvelli þegar dimma tók.

Herinn lét til skarar skríða eldsnemma í morgun. Hermenn réðust inn í klaustur, drógu munkana út og sendu þá burt á pöllum herflutningabíla. Í einhverjum klaustrum voru munkar barðir til óbóta. Síðan var aðliggjandi götum lokað með gaddavír.

Þegar fólk kom út til að mótmæla herforingjastjórninni í morgun voru hermenn búnir að loka helstu vegamótum í borginni. Þeir skutu táragasi að fólki og þegar það dugði ekki hleyptu þeir af byssum sínum upp í loftið.

Í átökum víðs vegar um borgina létu að minnsta kosti níu manns lífið, þeirra á meðal japanskur ljósmyndari, Búddamunkar og almennir borgarar. Útlægir íbúar landsins hafa mótmælt víða um heim.

Talsmaður stjórnvalda í Kína, sem hafa talsverð ítök í Mjanmar, eða Burma, hvatti stjórnvöld til þess að viðhalda friði í samfélaginu. En það var lítinn frið að sjá á götum Yangon í dag.

Fréttir berast einnig af átökum annars staðar í landinu en erfitt er að fá þær staðfestar. Og þetta gætu verið síðustu myndirnar sem berast frá Myanmar því stjórnvöld eru nú óðum að skera á upplýsingastreymi úr landinu, hægja á nettengingum og klippa á símtengingar þekktra andófsmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×