Erlent

Segir að ræningjar Madeleine hafi gefið henni svefnlyf

Foreldrar Madeleine.
Foreldrar Madeleine. MYND/AFP
Líklegt er að ræningjar Madeleine McCann hafi gefið henni svefnlyf eða róandi lyf þegar þeir rændu henni að mati ömmu Madeleine. Að sögn ömmunnar hefði Madeleine að öðrum kosti látið í sér heyra þegar henni var rænt af hótelherberginu.

Eileen McCann, móðir föður Madeleine, segir í samtali við breska dagblaðið The Mirror allar ásakanir á hendur syni sínum vera úr lausu lofti gripnar. Segir hún útilokað að sonur hennar og eiginkona hans beri ábyrgð á hvarfi Madeleine. „Hver sem tók hana hlýtur að hafa gefið henni svefnlyf eða róandi lyf. Það er útilokað að þeir hafi geta borið hana út úr herberginu án þess að hún hafi vaknað og látið í sér heyra," sagði Eileen.

Sérfræðingar lögreglunnar í Birmingham í Bretlandi rannsaka nú hár sem fannst á hótelherbergi Madeleine og talið er vera af henni. Auk DNA rannsóknar verður einnig athugað hvort finna megi vísbendingar um að Madeleine hafi verið gefin lyf áður en henni var rænt.

Portúgalska lögreglan hefur haft foreldra Madeleine undir grun í málinu frá því í sumar. Telja lögregluyfirvöld að foreldrarnir hafi vísvitandi reynt að spilla fyrir rannsókn málsins með því að beina athyglinni frá sjálfum sér.

Foreldrar Madeleine hafa í hyggju að koma fram í sérstökum sjónvarpsþætti í Portúgal á næstunni í þeirri von að það muni leiða til þess að Madeleine komi í leitirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×