Enski boltinn

Pressan eykst á Stuart Pearce

NordicPhotos/GettyImages

Forráðamenn Manchester City hafa vísað því á bug að spennan sé að magnast í herbúðum liðsins í kjölfar þess að það horfir fram á nokkra fallhættu fram á vorið í ensku úrvalsdeildinni. Sum bresku blaðanna ganga svo langt að segja að Pearce verði látinn fjúka ef hann nær ekki viðunandi úrslitum gegn Chelsea annað kvöld.

The Sun heldur því fram í dag að Pearce hafi aðeins tvo leiki til að snúa við blaðinu með liðið - ella verði hann rekinn. Því er haldið fram að stjórn félagsins sé afar ósátt við að Pearce hafi samþykkt að taka að sér þjálfun ungmennaliðs Englendinga og að þá hafi pressan aukist á hann í kjölfar þess að liðið féll úr keppni í bikarnum gegn Blackburn á dögunum. Stuðningsmenn City sungu "þið eruð ekki verðugir þess að klæðast treyjunni," til leikmanna sinna eftir tapið.

Þeir Sam Allardyce hjá Bolton og Paul Jewell hjá Wigan eru tveir stjórar sem nefndir hafa verið sem líklegustu eftirmenn Pearce hjá City, en Pearce sjálfur vísar þessu alfarið á bug.

"Framtíð mín í starfi ræðst ekki á næstu tveimur leikjum. Þetta er frábært félag og mig langar að vera miklu lengur hjá Manchester City. Ég átti von á því að liðið yrði ofar í töflunni í vetur en raun bar vitni, en við förum ekkert að vorkenna sjálfum okkur þó illa gangi og munum berjast til síðasta manns," sagði Pearce. City er sem stendur í 17. sæti ensku úrvalsdeildarinnar - sex stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×