Erlent

Borað niður á nýja lind á Golíatsvæði

Tilraunaboranir á Golíatsvæði lofa góðu.
Tilraunaboranir á Golíatsvæði lofa góðu. mynd/ap

Ítalska olíufyrirtækið Eni hefur borað niður á gjöfula olíulind á Golíat-leitarsvæðinu undan strönd Norður-Noregs. Norska olíumálaráðuneytið greindi frá þessu í gær.

Golíat-svæðið er í um 85 km fjarlægð frá nyrsta bæ Noregs, Hammerfest, og um 50 km suður af Mjallhvítarsvæðinu, þaðan sem útflutningur á jarðgasi hefst síðar á þessu ári. Tilraunaboranir hófust á Golíatsvæðinu í fyrra. Nýja borholan var orðin 1950 m djúp þegar komið var niður á olíulindina.

Olíumálaráðuneytið greindi einnig frá því í gær að kanadíska fyrirtækið Talisman Energy Inc. hefði óskað eftir heimild til að hefja á ný olíuvinnslu á Yme-svæðinu undan Suður-Noregi, en Statoil hætti olíuvinnslu þar árið 2001. Kanadíska fyrirtækið telur sig geta gert olíuvinnslu þar aftur arðbæra vegna hás olíuverðs og nýrrar tækni, sem gerir mögulegt að ná meiri olíu upp úr gömlum lindum sem fyllast af sjó.

Noregur er þriðji stærsti olíuútflytjandi heims, eftir Sádi-Arabíu og Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×