Erlent

Mannrán borga sig

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Hópur háttsettra Suður-kóreskra embættismanna hélt í dag til Kabul til að reyna að fá 22 Suður-Kóreumenn leysta úr haldi talibana. Mannræningjarnir myrtu einn úr hópnum í gær. Talsmaður talibana segir það reynast afar vel að ræna erlendum ríkisborgurum.

Yfirvöld í Afghanistan segjast ekki ætla að beita hervaldi til að leysa gíslana úr haldi. Símasamband sé við Talibanana og unnið sé að því að semja við mannræningjana.

Lík eins suður-kóreumannsins fannst sundurskotið í Ghazni héraði í gær, en þar var gíslunum rænt síðastliðinn fimmtudag. Stjórnvöld í Suður-Kóreu fordæma morðið og krefjast lausnar gíslanna tafarlaust.

Lögreglumaður sem vildi ekki láta nafns síns getið við AP fréttastofuna sagðist hafa heimildir fyrir því að maðurinn hefði verið veikur og ekki getað gengið, þess vegna hafi hann verið myrtur.

Fréttir af morðinu hafa valdið reiði margra suður-kóreumanna og málið hefur vakið hörð viðbrögð í landinu. Mótmælendur í Seoul hafa í framhaldi af mannráninu farið fram á að Bandaríkin og Suður-Kórea dragi allt herlið sitt frá Afghanistan, en það er einmitt krafa mannræningjanna, sem vilja auk þess að talibanar í afgönskum fangelsum verði látnir lausir.

Stjórnvöld í Suðurkóreu höfðu tilkynnt fyrir mannránið að 200 hermenn í landinu yrðu kallaðir heim á þessu ári.

Yfirvöld í Afghanistan segja samningaumleitanir á þessu stigi snúast um lausn átta gíslanna.

Einn yfirmanna talibana Mansour Dadullah segir á fréttavef BBC að mannrán muni halda áfram í landinu þar sem þau séu mjög góð aðferð til að fá ýmsum kröfum framgengt.

Vegna tíðra mannrána í Afganistan hefur lögreglan í Kabúl bannað erlendum ríkisborgurum að fara frá borginni án þess að fá til þess sérstakt leyfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×