Erlent

Ný ríkisstjórn í Austurríki

Tveim stærstu stjórnmálaflokkum Austurríkis, Jafnaðarmannaflokknum og Þjóðarflokknum, hefur tekist að ná samkomulagi í stjórnarmyndunarviðræðum sem hófust fyrir þremur mánuðum.

Alfred Gusenbauer, leiðtogi jafnaðarmanna, verður kanslari stjórnarinnar en Þjóðarflokkurinn fær í sinn hlut veigamikil ráðherraembætti, svo sem fjármálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og innanríkisráðuneytið. Óljóst var hvort Wolfgang Schüssel, fráfarandi kanslari og leiðtogi íhaldsmanna, yrði ráðherra í nýju stjórninni.

Flokkarnir tveir hafa jafnan verið andstæðingar í stjórnmálum, en eftir að Jafnaðarmannaflokkurinn vann nauman sigur á Þjóðarflokknum í þingkosningunum 1. október síðastliðinn þar sem Jafnaðarmenn fengu 35,3 prósent atkvæða en Þjóðarflokkurinn 34,3 prósent, voru fáir aðrir kostir í stöðunni en að þessir fornu fjandvinir mynduðu stjórn saman.

Stjórnarmyndunarviðræður gengu hægt og Þjóðarflokkurinn sleit þeim eftir að jafnaðarmenn tóku höndum saman við tvo minni flokka um að hefja rannsókn á herþotukaupum stjórnarinnar.

Varnarmálaráðherra nýju stjórnarinnar fær það hlutverk að rannsaka þessi umdeildu þotukaup og kemur varnarmálaráðuneytið í hlut jafnaðarmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×