Erlent

Miklar efasemdir um Monu Sahlin

Mona Sahlin Var sem ráðherra gagnrýnd fyrir dýran lífsstíl á kostnað skattgreiðenda.
Mona Sahlin Var sem ráðherra gagnrýnd fyrir dýran lífsstíl á kostnað skattgreiðenda. MYND/nordicphotos/afp

Félagar í sænska Jafnaðarmannaflokknum eru mjög klofnir í afstöðu sinni til þess hvort þeir kæri sig um að Mona Sahlin verði næsti leiðtogi flokksins. Flokkurinn leitar nú að arftaka Görans Persson, sem farið hefur fyrir flokknum síðan árið 1996, en hann ákvað að draga sig í hlé eftir tapið í þingkosningunum í haust.

Samkvæmt viðhorfskönnun sem Dagens Nyheter gerði meðal forsvarsmanna hinna 26 héraðsdeilda flokksins sögðust fjórtán hafa fyrirvara gegn Sahlin sem formannsefni. Aðeins fjórir lýstu yfir afdráttarlausum stuðningi við hana.

Þegar Persson var kjörinn formaður fyrir nærri ellefu árum var Sahlin helsti keppinautur hans um embættið. Þegar hann ákvað í september að hann myndi hætta sem formaður leitaði hann eftir því við Margot Wallström, sem situr í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og nýtur mikilla vinsælda í flokknum, að hún gæfi kost á sér en hún afþakkaði.

Sterk ósk er um það innan flokksins að næsti formaður verði kona, og því beinist athyglin nú í auknum mæli að Sahlin, sem var ráðherra í stjórn Perssons og vinkona Önnu Lindh, sem allt stefndi í að yrði næsti flokksleiðtogi þegar hún var myrt árið 2003. Komi enginn sterkari kvenframbjóðandi fram en Sahlin kann þó svo að fara að karl verði fyrir valinu einu sinni enn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×