Enski boltinn

David Dein hættur hjá Arsenal

David Dein hefur setið í stjórn Arsenal síðan árið 1983
David Dein hefur setið í stjórn Arsenal síðan árið 1983 AFP

David Dein, varastjórnarformaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, hætti störfum hjá félaginu í dag. Félagið hefur gefið út yfirlýsingu í kjölfarið þar sem fram kemur að þessi ráðstöfun tengist ekki fyrirhuguðu yfirtökutilboði ameríska auðjöfursins Stan Kroenke í félagið.

Dein hefur verið áberandi í enskri knattspyrnu síðan hann tók sæti í stjórn Arsenal árið 1983, en nú hefur félagið tilkynnt að hann sé hættur störfum. Hann tók nýlega við stjórnarformennsku í G-14, félagi valdamestu knattspyrnufélaga Evrópu.

"Við viljum þakka Dein fyrir frábær störf fyrir félagið og óskum honum velfarnaðar í framtíðinni. Hann hefur reynst félaginu vel þann tíma sem hann hefur þjónað því og okkur þykir miður að ekki reyndist mögulegt að leysa ágreining sem var milli hans og annara stjórnarmanna," sagði í yfirlýsingu frá félaginu.

"Stjórnin vill taka það fram að brotthvarf Dein tengist á engan hátt þeim orðrómi sem verið hefur á kreiki um að erlendir fjárfestar séu að undirbúa yfirtökutilboð í félagið, en Kroenke Sports Enterprises keypti nýlega 11% hlut í félaginu. Sitjandi stjórnarmenn í félaginu eiga 45,45% hlut í félaginu og hafa þeir ákveðið að selja hann ekki á næsta ári í það minnsta." 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×