Enski boltinn

Mourinho: Úrslitaleikurinn verður ótrúlegur

NordicPhotos/GettyImages

Jose Mourinho, stjóri Chelsea, hrósaði sínum mönnum í hástert í dag þegar liðið tryggði sér sæti í úrslitaleik enska bikarsins með 2-1 sigri á Blackburn í framlengdum leik. Hann segir úrslitaleikinn milli Chelsea og Manchester United verða stórkostlegan.

"Úrslitaleikurinn verður stórkostlegur. Bæði lið hafa átt ótrúlegt tímabil og úrslitaleikurinn verður mér sannkallaður draumur," sagði Mourinho og hrósaði markaskoraranum Michael Ballack - sem og reyndar mótherjunum öllum.

"Ballack var frábær eins og í allan vetur og hann er sigurvegari. Hann berst vel fyrir liðið og hefur reynst okkur vel. Blackburn-liðið var líka stórkostlegt. Þeir börðust eins og hetjur og leikmennirnir, stuðningsmennirnir og stjórinn eiga allir heiður skilinn. Það var leiðinlegt að þeir þyrftu að falla úr keppni, en þeir geta svo sannarlega verið stoltir af sinni frammistöðu. Það eru mínir menn líka. Við erum enn í aðstöðu til að vinna fjórfalt og þó vel megi vera að við náum ekki einum einasta titli í viðbót - ætlum við að njóta þess sem eftir lifir tímabils."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×