Erlent

Sífellt fleiri handteknir

Í síðasta mánuði réðst breska lögreglan inn í nokkur hús í Birmingham og handtók þar níu manns vegna gruns um að þeir tengdust hryðjuverkaáformum.

Á föstudaginn voru fimm hinna handteknu ákærðir, einn þeirra fyrir að hafa áformað að ræna og drepa breskan hermann. Tveir þeirra voru hins vegar látnir lausir í síðustu viku og annar þeirra, Abu Bakr, sagði múslima upplifa Bretland sem „lögregluríki“.

Eftir hryðjuverkin í þremur neðanjarðarlestum og einum strætisvagni í London sumarið 2005 hefur handtökum breskra múslima fjölgað gífurlega, en stór hluti hinna handteknu hefur síðar verið látinn laus án þess að neinar ákærur hafi verið gefnar út.

Veruleg reiði hefur magnast meðal múslima í Bretlandi vegna þessa. Múslimum finnst að sér vegið með ómaklegum hætti og fá það á tilfinninguna að þeir séu óvelkomnir í landinu, jafnvel þeir sem eru þar fæddir og aldir upp.

Tayib Rauf var handtekinn í Birmingham um miðja nótt í ágúst síðastliðnum vegna gruns um aðild að áformum um að sprengja upp farþegaflugvélar á leið yfir Atlantshafið. Fyrstu þrjá dagana í fangelsinu fóru engar yfirheyrslur fram.

„Síðan byrjuðu þeir að spyrja mig fjölmargra heimskulegra spurninga: „Hvað gerirðu? Hverja umgengstu? Vandræðalegasta spurningin var þegar þeir spurðu mig hvers konar múslimi ég væri. Hvernig svarar maður því?“

Hann segir minningarnar hafa hellst yfir sig þegar mennirnir níu voru handteknir á svipuðum slóðum nú fyrir skemmstu. Rauf, sem er 22 ára, var sleppt eftir tvær vikur í haldi, en hann hefur ekki enn komist að því hvers vegna hann var handtekinn. Hann segist þó gruna að það sé vegna þess að bróðir hans, Rashid, sem býr í Pakistan, sé grunaður um að hafa skipulagt árásirnar auk þess sem annar maður í London, sem einnig var leystur úr haldi án ákæru, hafi einu sinni unnið hjá fjölskyldu-fyrirtæki Raufs.

„Þetta er eins og keðja,“ sagði Rauf. „Maður er handtekinn vegna þess hverja maður umgengst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×