Erlent

Bretar fækka herliði í Írak um helming

Brown reynir nú að endurheimta pólitískt frumkvæði og hylli almennings.
Brown reynir nú að endurheimta pólitískt frumkvæði og hylli almennings. MYND/AFP

Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands tilkynnti í neðri málstofu breska þingsins í dag að breskum hermönnum í Írak yrði fækkað úr 5.500 í 2.500 fyrir næsta vor. Hann tekur fulla ábyrgð á vangaveltum um kosningar. Brown neitar því að slæm útkoma skoðanakannana hafi haft áhrif á ákvörðun hans um að blása ekki til kosninga.

Brown tilkynnti einnig að þeir Írakar sem unnið hafa fyrir breska herinn í Írak muni eiga möguleika á að sækja um fjárhagsaðstoð til að koma sér fyrir þar, annars staðar í heimshlutanum, eða, undir sumum kringumstæðum, í Bretlandi.

Í yfirlýsingu sem Brown flutti frá Downingsstræti 10 í morgun sagðist hann vilja meiri tíma til að sanna sig í embætti. Hann neitaði vandræðagangi með ákvörðunina og sagðist hafa ætlað að taka ákvörðunina eftir flokksþing flokkanna sem nú er nýlokið.

David Cameron leiðtogi íhaldsmanna hefur gagnrýnt Brown harkalega fyrir að koma ekki hreint fram við almenning. Og Sir Menzies Campbell leiðtogi frjálslyndra demókrata segir getgátur um kosningar hafa verið mjög skemmandi.

Brown reynir því að sanna sig og endurheimta pólitískt frumkvæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×