Erlent

Rannsaka hugsanlegt gin- og klaufaveikismit í dýragarði

Bresk yfirvöld reyna nú að hefta útbreiðslu gin- og klaufaveiki þar í landi.
Bresk yfirvöld reyna nú að hefta útbreiðslu gin- og klaufaveiki þar í landi. MYND/Stöð2

Bresk yfirvöld rannsaka nú hvort búfénaður í dýragarði skammt frá Surrey í Suður-Englandi hafi sýkst af gin- og klaufaveiki. Fyrr í dag tilkynntu bresk yfirvöld að þau væru einnig að rannsaka hugsanlegt smit á nautgripabúi í Kent. Óttast menn nú að yfirvöldum hafi mistekist að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins.

Dýragarðurinn er fyrir utan það sóttvarnarsvæði sem sett var upp í kringum naugripabúið þar sem sjúkdómurinn greindist fyrst. Starfsmenn dýragarðsins óskuðu eftir að dýralæknir rannsakaði sauðfé sem þar er til sýnis. Dýragarðinum hefur verið lokað og sóttvarnarsvæði sett upp í kringum hann. Sýnin sem tekin voru af skepnunum eru nú til rannsóknar.

Haft er eftir breskum embættismanni í frétt Reuters að ekkert bendir þó til þess að dýrin séu smituð af gin- og klaufaveiki.

Í síðustu viku kom upp grunur um smit á bæ í Surrey en sá grunur reyndist hins vegar ekki á rökum reistur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×