Erlent

Oslóbúar hamstra vatn á flöskum

Nærri hálf milljón Oslóbúa þarf að sjóða allt neysluvatn.
Nærri hálf milljón Oslóbúa þarf að sjóða allt neysluvatn.
Noregur Nærri hálfri milljón Oslóbúa hefur verið ráðlagt af yfirvöldum að sjóða allt neysluvatn í minnst þrjár mínútur eftir að giardia-sníkjudýrið greindist í vatnssýnum úr höfuðvatnsbóli borgarbúa. Þeir hafa nú hamstrað drykkjarvatn á flöskum svo að það er orðið uppselt í verslunum.

Það sem af er þessu ári hafa 53 Oslóbúar greinst með giardia-sýkingu, að því er Aftenposten greinir frá, en í flestum tilvikum var smitið að rekja til dvalar erlendis. Sníkjudýrið umrædda líkist lús, séð í smásjá, og getur valdið alvarlegri sýkingu ef það berst í meltingarfæri manna. Það berst í vatn úr saur.

Sigurlaug Guðmundsdóttir býr sjálf í úthverfi Oslóar sem fær vatn úr hreinu vatnsbóli. En hún vinnur á sjúkrahúsi í miðborginni þar sem nú þarf að sjóða allt vatn. „Þetta er heilmikið mál,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið.

„Það er ekki einu sinni hægt að nota kaffivélarnar því þær sjóða vatnið ekki nógu lengi,“ segir hún. Hún hafi því gert vinnufélögum sínum og sjúklingum þann greiða í gærmorgun að koma með heimalagað kaffi á brúsum í vinnuna. - aa



Fleiri fréttir

Sjá meira


×