Þrír fyrrverandi starfsmenn Kóka Kóla verksmiðjanna hafa verið dæmdir í háar fjársektir og til langrar fangelsisvistar fyrir að reyna að selja Pepsí verksmiðjunum uppskriftina af kókinu. Pepsí lét keppinautinn vita af tilboðinu og var alríkislögreglan þá kölluð til.
Gildra var lögð fyrir starfsmennina sem vildu fá eitthundrað milljónir króna fyrir uppskriftina. Þeir voru svo handteknir þegar þeir afhentu hana. Sá sem tók á móti var ekki starfsmaður Pepsí heldur FBI.
Þjófarnir fá að dúsa í fangelsi frá fimm til átta ár. Uppskriftin að Kóka Kóla hefur verið vandlega varðveitt leyndarmál frá árinu 1884.