Erlent

Höggmyndir fluttar niður Akropolishæð

Tvö þúsund og fimm hundruð ára gamlar styttur voru í dag fluttar af Akropolis hæð í Aþenu niður að safni sem verður þeirra framtíðarheimili.

Parþenon hofið hefur gnæft yfir Aþenu ofan af Akropolis hæðinni í hálft þriðja árþúsund. Ómetanleg listaverk, sem áður voru hluti af hofinu en hafa undanfarið verið geymd í safni uppi á hæðinni, voru í dag flutt niður Akropolis til nýrra heimkynna í nýbyggðu safni við fjallsræturnar.

Þrír kranar voru notaðir til að lyfta rúmlega tveggja tonna listaverki úr grjóti. Listaverkið sem var flutt í dag er hluti af 160 metra veggmynd sem áður myndaði efri hluta hofsins.

Um er að ræða helgimynd sem á er að finna myndir af 360 mönnum og 250 dýrum í trúarlegri prósessíu. Listaverkin verða flutt niður hæðina, hægt og rólega, næstu sex til átta vikurnar.

Gríski menningarmálaráðherrann vonast til að nýja safnið minni Breta á tilkall Grikkja til verka sem Elgin lávarður tók fyrir um tvö hundruð árum og eru nú í breska þjóðminjasafninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×