Innlent

Lést líklega af áverkum eftir bílveltu

Talið er að milta mannsins hafi skaddast í veltunni og það síðan rofnað um borð í Norrænu.
Talið er að milta mannsins hafi skaddast í veltunni og það síðan rofnað um borð í Norrænu.
Andlát manns á fimmtugsaldri í ferjunni Norrænu í október í fyrra má að öllum líkindum rekja til umferðarslyss sem hann lenti í áður en hann fór um borð í skipið. Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa sem gerð var opinber í gær.

Bíllinn valt í Berufirði eftir að maðurinn missti stjórn á honum. Hann var fluttur á heilsugæslustöð og fundu sjúkraliðar ekkert að honum. Krufningarskýrslur benda til þess að milta mannsins hafi skaddast í veltunni og það hafi síðan rofnað síðar um daginn. Því hafi fylgt mikil blæðing sem dró manninn til dauða.

Í skýrslunni er úttekt gerð á þeim 28 banaslysum sem urðu í umferðinni í fyrra. Fram kemur að orsakir banaslysa séu oftast vísvitandi brotahegðun og að ölvunar- og hraðakstur hafi verið orsök rúmlega þriðjungs banaslysa á árunum 1998 til 2006.

Nefndin telur líklegt að sex þeirra 31 sem lést hefðu lifað af ef þeir hefðu notað bílbelti. Þá kemur fram að bílbeltanotkun í banaslysum var mun minni í fyrra en á árunum 1998 til 2005. Í fyrra var bílbeltanotkunin 47 prósent, en 60 prósent að meðaltali árin á undan.

Þá segir að margir ökumenn sem orsökuðu banaslys í fyrra hafi verið með fjölda brota á ökuferli sínum og að um helmingur ökutækja í banaslysum hafi verið í slöku ásigkomulagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×