Enski boltinn

Baráttan um Bent

NordicPhotos/GettyImages

Baráttan um enska landsliðsframherjann Darren Bent hjá Charlton fer nú harðnandi ef marka má frétt breska sjónvarpsins í morgun, en talið er að West Ham sé líklegasti viðkomustaður leikmannsins. Þar myndi hann hitta fyrir fyrrum knattspyrnustjóra sinn Alan Curbishley. Verðmiðinn er sagður vera um 17 milljónir punda á þessum 23 ára gamla leikmanni.

Sagt er að West Ham muni bjóða miðjumanninn Hayden Mullins í skiptum fyrir Bent og að félagið sé tilbúið að bjóða honum fimm ára samning sem muni skila honum 75,000 pundum í vikulaun. Tottenham er einnig sagt hafa áhuga á Bent, en þar á bæ eru reyndar fyrir óánægðir framherjar sem fá ekki að spila og óvíst er að félagið hafi efni á að bjóða honum jafn há laun. Þá er einnig talað um að Liverpool hafi áhuga á að fá Bent í sínar raðir.

Það var einmitt Alan Curbishley sem keypti Darren Bent frá Ipswich fyrir tveimur árum fyrir 2,75 milljónir punda og ef framherjinn verður seldur á metfé nú í sumar er ljóst að gamla félagið hans Ipswich mun græða vel. Félagið á rétt á að fá 20% af kaupvirðinu vegna klásúlu í kaupsamningnum hans þegar hann fór til Charlton á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×