Erlent

Chavez hótar nú að loka annarri stöð

Mótmæli í Caracas. Háskólanemar köstuðu táragassprengju frá lögreglunni aftur til baka á mótmælafundi í Caracas á þriðjudag.
Mótmæli í Caracas. Háskólanemar köstuðu táragassprengju frá lögreglunni aftur til baka á mótmælafundi í Caracas á þriðjudag. MYND/AP

Hugo Chavez, forseti Venesúela, lætur mótmæli þúsunda landsmanna sinna sem vind um eyru þjóta og segist hafa verið í fullum rétti að loka einkarekinni sjónvarpsstöð um síðustu helgi. Nú hótar hann því að loka annarri sjónvarpsstöð, sem hann segir hafa hvatt fólk til að ráða sig af dögum.

„Ég mæli með því að þeir taki róandi lyf, hægi aðeins á sér, því ef þeir gera það ekki þá ætla ég að hægja á þeim,“ sagði Chavez í ræðu á þriðjudaginn. Þar átti hann við Globavision, sem er einkarekin sjónvarpsstöð rétt eins og Radio Caracas Television, sem hætti útsendingum um síðustu helgi eftir að Chavez neitaði að framlengja útsendingarleyfi hennar.

Hann útskýrði reyndar ekki nánar hvað hann ætti við, en sagði bæði dagblöð og sjónvarpsstöðvar hvetja til óeirða og ofbeldis. Hann bað stuðningsmenn sína um að „vera á verði“ og hvatti opinbera embættismenn til þess að fylgjast náið með fjölmiðlum.

Allt þetta sagði Chavez í ræðu á þriðjudagskvöldið, meðan þúsundir manna mættu til útifunda víðs vegar um land, ýmist til að lýsa andstöðu sinni við aðgerðir forsetans eða til að lýsa stuðningi sínum við hann. Andstæðingar hans kröfðust frelsis en stuðningsmennirnir mótmæltu tilraunum stjórnarandstöðunnar til að koma af stað óeirðum. Tugir slíkra funda hafa verið haldnir í Venesúela á síðustu dögum.

Alþjóðleg samtök um fjölmiðlafrelsi, Evrópusambandið, öldungadeild þingsins í Chile og mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa lýst áhyggjum sínum af lokun sjónvarpsstöðvarinnar RCTV.

„Þetta er einræði“ hrópuðu andstæðingar forsetans á mótmælafundum á þriðjudaginn, en stuðningsmenn hans sögðust ekki sakna sjónvarpsstöðvarinnar.

„RCTV var rusl. Dagskráin var hræðileg, tóm lágkúra. Ekki einu sinni stjórnarandstaðan horfði á hana,“ sagði Elena Pereira, enskuprófessor í ríkisháskóla í Venesúela. „Þeir vilja bara ástæðu til að steypa stjórninni.“ Mót­mæla­­fund­irnir á þriðjudaginn fóru friðsamlega fram, en á mánudaginn kom til átaka mótmælenda og lögreglu í Caracas, höfuðborg landsins. Lögreglan beitti táragasi og sagði nítján lögreglumenn slasaða, en engar tölur voru nefndar um fjölda slasaðra mótmælenda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×