Enski boltinn

Carlos Tevez fullkomnaði draumaendasprett West Ham

frábær Carlos Tevez átti mikinn þátt í björgunarafreki West Ham.
frábær Carlos Tevez átti mikinn þátt í björgunarafreki West Ham. MYND/Getty

West Ham kórónaði frábæran endasprett sinn í ensku úrvalsdeildinni með því að vinna 1-0 sigur á Englandsmeisturum Manchester United á Old Trafford.

Það var að sjálfsögðu Argentínumaðurinn Carlos Tevez sem skoraði sigurmarkið og fyrir vikið fékk Sheffield United á óhagstæðari markatölu en Wigan. Tevez skoraði 7 mörk fyrir Lundúnaliðið og öll komu þau í tíu síðustu leikjunum.

„Það er frábært að koma og vinna Manchester United á Old Trafford, sama hverjar kringumstæðurnar eru. Ég vona að hvorki ég né West Ham fari í gegnum svona tímabil aftur," sagði Alan Curbishley, stjóri West Ham eftir sigurinn.

West Ham vann fjóra síðustu leiki sína og fékk alls 21 stig af 27 stigum mögulegum út úr níu síðustu leikjum sínum. Manchester United lét tapið ekki spilla fyrir sigurhátíðinni og þeir Gary Neville og Ryan Giggs lyftu Englandsbikarnum í sameiningu.

 

Bikarinn á loft. Gary Neville og Ryan Giggs tóku báðir við Englandsbikarnum.MYND/Getty

Wigan sem var í fallsætinu fyrir umferðina bjargaði sér með því að vinna Sheffield 1-2 á útivelli og senda þar með heimamenn niður í 1. deild. „Þetta var mikið afrek en ég get ekki annað en vorkennt Sheffield United. Það er ekki gaman að fagna fyrir framan lið sem er fallið úr deildinni," sagði Paul Jewell, stjóri Wigan eftir leikinn.

Það komu bara þrjú stig í hús hjá efstu fjórum liðunum því Chelsea (1-1 á móti Everton), Liverpool (2-2 á móti Charlton) og Arsenal (0-0 á móti Portsmouth) náðu öll bara einu stigi út úr sínum leikjum. Vítaspyrna Harrys Kewell á lokamínútunni reddaði stiginu fyrir Liverpool sem þar með hélt 3. sætinu sem annars hefði farið til Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×