Fótbolti

Á toppnum í 44 umferðir í röð

Emil Hallfreðsson kom FH á toppinn fyrir tæpum 34 mánuðum síðan og liðið hefur verið þar síðan.
Emil Hallfreðsson kom FH á toppinn fyrir tæpum 34 mánuðum síðan og liðið hefur verið þar síðan. MYND/Stefán

Landsbankadeild karla í knattspyrnu hefst í dag með leik ÍA og FH á Akranesvelli.

FH-ingar hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn þrjú ár í röð og eru farnir að nálgast met Skagamanna sem unnu titilinn fimm ár í röð frá 1992 til 1996. Allar spár knattspyrnuspekinga fyrir sumarið eru á einn veg, FH-ingar verða Íslandsmeistarar þrátt fyrir að lið eins og KR og Valur mæti mjög vel mönnuð til leiks og séu bjartsýn að geta náð Hafnfirðingum niður af toppnum.

Yfirburðir FH-inga í Landsbankadeild karla undanfarin tvö tímabil hafa endurskrifað metaskrá deildarinnar og eitt glæsilegasta metið af þeim er seta liðsins í toppsæti deildarinnar. Síðustu 34 mánuði hefur engu liði tekist að koma Hafnarfjarðarliðinu af toppnum. FH hefur unnið fimm fyrstu leiki sína tvö síðustu tímabil og hafa gefið tóninn strax frá fyrsta leik.

Síðan að Risinn vaknaði og komst á toppinn fyrir 34 mánuðum hefur FH-liðið unnið 32 leiki, aðeins tapað 4 leikjum og skorað 101 mark gegn aðeins 30. Alls hafa 104 stig komið í hús í Krikanum sem eru 35 fleiri stig en næsta lið, ÍA, hefur náð í á þessu tímabili.

18. júlí 2004 var sögulegur dagur fyrir Landsbankadeild karla því það var síðasti dagurinn sem eitthvað annað lið en FH sat í efsta sæti deildarinnar. FH-ingar unnu daginn eftur 1-0 sigur á Fylkismönnum á heimavelli sínum og liðin höfðu sætaskipti á toppnum. Það var Emil Hallfreðsson sem skoraði sigurmarkið í leiknum á 63. mínútu. FH-ingar komust þar í fyrsta sinn í efsta sæti deildarinnar síðan að liðið vann tvo fyrstu leiki sína sumarið 1995.

Valsmenn hafa oftast verið í 2. sætinu á eftir FH-ingum þennan tíma eða alls eftir 21 af umferðunum 44. Valur var í 2. sæti í 17 umferðum af 18 sumarið 2005.

Framarar eru eina liðið sem hefur komist með tærnar þar sem FH-ingar hafa haft hælana því þeir sátu við hlið FH í efsta sæti eftir fyrstu umferð deildarinnar 2005. FH vann þá 3-0 sigur á Keflavík en Fram vann á sama tíma 3-0 sigur á ÍBV. Það átti allt eftir að breytast því sautján umferðum munaði 31 stigi á liðunum, FH var orðið Íslandsmeistari en Fram fallið í 1. deild.

Nú er að sjá hvort FH-ingar bæti enn við ótrúlegt met sitt eða hvort það sé komið að öðru liði að upplifa það að sitja í efsta sæti Landsbankadeildar karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×