Erlent

Herinn kallaður til vegna flóða í Bretlandi

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Óveður og úrhellisrigning í gærkvöldi og nótt orsökuðu flóð á stórum svæðum í Bretlandi. Algjört umferðaröngþveiti skapaðist á helstu hraðbrautum Englands. Fjöldi ökumanna og farþega þurfti að gista í bílum sínum en helgin er ein mesta ferðahelgi sumarsins. Herinn og björgunarsveitir hafa unnið að því í allan dag að koma fólki til hjálpar.

Svæðið sem verst varð úti í flóðunum var Gloucesterskíri þar sem enn er unnið að því að bjarga fólki úr bílum sem sitja fastir í vatnselg. Hundruð ökumanna sátu einnig fastir í bílum sínum í nótt eftir að hellirigning lokaði M5 hraðbrautinni. Sumir þurftu að dúsa í bílunum í allt að tuttugu klukkustundir, margir án vatns og matar og enn situr fjöldi bifreiða fastur á hraðbrautinni.

Skólaleyfi hófust í landinu fyrir helgi og virðist slæm spá ekki hafa hindrað fjölskyldufólk í að leggja í hann, en þetta er ein mesta ferðahelgi sumarsins. Foreldrar sem festust í umferðinni lentu því í því að þurfa einhvern veginn að hafa ofan af fyrir börnunum í óveðrinu.

Sumir neyddust til að halda kyrru fyrir í bílum víða á svæðinu, en margir yfirgáfu þá og leituðu í neyðarskýli þar sem um tvö þúsund manns gistu í nótt. Sky fréttastofan greindi frá því að barn hafi fæðst í bíl sem var fastur í umferðaröngþveitinu. Lestarsamgöngur eru einnig í lamasessi á sumum svæðum.

Neyðarlínan fékk yfir sextán hundruð neyðarsímtöl á níu klukkustundum, það eru fimmfalt fleiri símtöl en vanalega.

Á sumum stöðum í Bretlandi var úrkoman á nokkrum klukkutímum jafn mikil og í heilum mánuði.

Gordon Brown forsætisráðherra sagði viðbrögð björgunarsveita og hersins hafa verið til mikillar fyrirmyndar.

Gefin hafði verið út viðvörun til ökumanna um að vera sem minnst á ferðinni. Áfram er spáð mikilli rigningu og slæmu veðri og hafa verið gefnar út á annan tug flóðviðvarana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×