Innlent

Orðrétt úr Baugsmálinu

„Þetta er nú svona meginlínan, svo dansar saksóknarinn þar, og öryggisnetið er hérna hjá dómaranum."

Arngrímur Ísberg dómsformaður skýrði þann línudans sem saksóknari og verjendur áttu að stunda með það hvort spyrja mætti endurskoðendur frá Deloitte sem sérfræðivitni í málinu.

„Ég leyfi mér að mótmæla þessu sem röngum framburði."

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, var allt annað en ánægður með lýsingu endurskoðanda Deloitte á því að algengt sé að skammstöfunin EBITDA sé kölluð hagnaður fyrir afskriftir.

„Sá veldur miklu sem upphafinu veldur."

Jakob R. Möller, verjandi Tryggva Jónssonar, sagðist þurfa talsverðan tíma til að yfirheyra Jón H. Snorrason, sem var yfir rannsókninni á Baugsmálinu, enda væri hann lykilvitni verjenda.

„Hann hefur kannski tafist við að hlaupa uppi glæpamann."

Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari, reyndi á gamansaman hátt að skýra af hverju Jón H. Snorrason var seinn fyrir, en eins og Fréttablaðið greindi frá á dögunum hljóp Jón uppi ölvaðan ökumann fyrir skömmu.

„Ef ég mætti aðeins svara áður en þú kemur með spurninguna."

Jón H. Snorrason er gamalreyndur saksóknari og reyndi að taka frumkvæðið í vitnaleiðslum yfir sjálfum sér af Gesti Jónssyni, en árangurslaust.

„Spurningin er svo leiðandi að já eða nei væri afleitt svar."

Sveinn Ingiberg Magnússon lögreglufulltrúi vildi hvorki svara játandi né neitandi spurningu Jakobs R. Möller um hvort rannsakað hefði verið hvort tölvupóstar í málinu væru falsaðir áður en dómkvaddir matsmenn voru kallaðir til.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×