Erlent

Öryggi ábótavant í lestum

hinir grunuðu Eftirlýsingarmyndir indversku lögreglunnar.
hinir grunuðu Eftirlýsingarmyndir indversku lögreglunnar. MYND/AFP

Tveir menn sem lögreglan á Indlandi grunar um að hafa staðið fyrir sprengjutilræðinu í lest á leið til Pakistan á sunnudaginn fengu að stökkva frá borði tuttugu mínútum áður en sprengingin varð. Lögregla sendi fjölmiðlum í gær myndir af hinum grunuðu.

Mennirnir fóru um borð í lestina þegar hún lagði af stað frá Nýju-Delí, höfuðborg Indlands, og fóru fljótlega að rífast við miðavörðinn vegna þess að þeir væru í rangri lest. Var þeim leyft að stökkva úr lestinni þegar hún hægði á sér að sögn Sharad Kumar, yfirmanns í lögreglunni.

Finnst mörgum það, að mönnunum hafi verið leyft að stökkva frá borði, vera til marks um það hve öryggi í lestum sé ábótavant. Í ofanálag greindi Kumar fjölmiðlum frá því að þrettán lestarfarþegar hefðu komist yfir til Pakistan án vegabréfa.

Ráðherra lestarsamgangna á Indlandi, Lalu Prasad, viðurkenndi fyrir fjölmiðlum eftir sprenginguna að þó málmleitartæki væru til staðar þá skorti búnað til að skoða hvað væri í farangrinum.

Að sögn indverska stjórnvalda var sprengingunni ætlað að spilla hægt batnandi samskiptum þjóðanna sem lengi hafa eldað grátt silfur. Sprengingin banaði 68 manns sem voru flestir frá Pakistan. Í kjölfar sprengingarinnar lýstu leiðtogar ríkjanna yfir að friðarviðræðum yrði fram haldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×