Erlent

Reynt að tefja friðarviðræður

Gjörónýtir lestarvagnar. Indverskir hermenn ganga framhjá lestinni sem eyðilagðist í sprengjuárás í fyrrakvöld.
Gjörónýtir lestarvagnar. Indverskir hermenn ganga framhjá lestinni sem eyðilagðist í sprengjuárás í fyrrakvöld. MYND/AP

Nærri 70 manns fórust þegar tvær sprengjur sprungu í fyrrakvöld í járnbrautarlest í bænum Dewana, sem er um 80 kílómetra norður af Nýju-Delí.

Indverskir embættismenn sögðu tilganginn með sprengjuárásinni greinilega vera þann að trufla eða koma í veg fyrir friðarviðræður milli Indlands og Pakistans.

Lestin var á leiðinni frá Indlandi til Pakistans þegar sprengingarnar urðu stuttu fyrir miðnætti. Flestir farþeganna voru frá Pakistan.

Friðvænlegra hefur verið milli Indlands og Pakistans síðustu árin, þótt helsta deilumál þeirra, sem er staða Kasmírhéraðs, sé enn óleyst. Ekki leit út fyrir að þessi árás myndi tefja fyrir viðræðum, en pakistönsk stjórnvöld krefjast þess að Indverjar hafi uppi á sökudólgunum og refsi þeim.

Í tveimur af þeim lestarvögnum, sem sluppu óskemmdir, fundust ferðatöskur með heimatilbúnum sprengjum sem talið er að hafi átt að springa um leið og hinar tvær.

Margir farþegar komust ekki út úr lestarvögnunum vegna þess að ekki var hægt að opna gluggana. Lestinni var ekið áfram til Pakistans eftir að eyðilögðu vagnarnir höfðu verið leystir frá henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×