Erlent

Veiktust vegna geislunar

Frá Landspítala. Tækjabúnaður sjúkrahúss í Noregi olli því að hjúkrunarfræðingar fengu krabbamein.
Frá Landspítala. Tækjabúnaður sjúkrahúss í Noregi olli því að hjúkrunarfræðingar fengu krabbamein. MYND/Anton

Átta hjúkrunarfræðingar á hjartadeild háskólasjúkrahússins í Haukeland í Noregi hafa verið greindir með krabbamein. Ástæðan er talin vera geislun á vinnustað.

Haukeland-sjúkrahúsið er það stærsta og fullkomnasta í Noregi. Að mati sérfræðinga í vinnutengdum sjúkdómum við Háskólann í Björgvin bendir allt til að ófullnægjandi umgengni um geislun hafi haft þessar afleiðingar í för með sér fyrir starfsfólkið.

Stjórnendur deildarinnar hafa alls skráð sextán tilfelli krabbameina meðal starfsfólksins. Í skýrslu er því slegið föstu að fyrir átta þessara starfsmanna séu mestar líkur á að vinnuumhverfið á deildinni sé orsök sjúkdómsins. Þrír þeirra eru þegar látnir.

Hjúkrunarfræðingarnir sem greinst hafa með krabbamein unnu við röntgenrannsóknir á Haukeland-sjúkrahúsinu á tímabilinu 1980 til 1995. Tækjabúnaður sjúkrahússins hefur síðan verið endurnýjaður.

Bente Slaatten, formaður Félags norskra hjúkrunarfræðinga, segir ábyrgð stjórnenda spítalans mikla og hjúkrunarfræðingar spyrja hvort tæki á norskum sjúkrastofnunum séu fullnægjandi. Einnig er gagnrýnt að þrjú ár liðu frá því að grunur vaknaði fyrst á tengslum krabbameins við geislameðferð sjúkrahússins og þar til skýrsla um málið var birt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×