Erlent

Ofbeldisalda gekk yfir Líbanon í gær

Það sem áttu að vera friðsöm mótmæli Hizbollah-samtakanna gegn stjórnvöldum í Líbanon snerust upp í verstu ofbeldis-öldu síðan samtökin hófu herferð sína gegn ríkisstjórninni fyrir tveim mánuðum.

Stjórnarandstæðingar lögðu í gær niður störf og brenndu dekk og bíla á stórum umferðargötum í höfuðborginni Beirút. Átök brutust út milli stjórnarandstæðinga og stjórnarsinna víða um landið. Talið er að yfir hundrað manns hafi særst í átökunum, þar af 25 í skotbardögum. Að minnsta kosti þrír létust. Samgöngur og starfsemi lamaðist víða vegna mótmælanna.

Ráðherrar og embættismenn stjórnvalda í Líbanon sögðu atburði gærdagsins tilraun til valdaráns. Hizbollah-samtökin og stuðningsmenn þeirra krefjast afsagnar Fuads Saniora, forsætisráðherra Líbanons, og að stjórn landsins, sem hefur stuðning Bandaríkjanna, veiti samtökunum meiri völd. Saniora hefur þvertekið fyrir það.

Alþjóðleg ráðstefna fer fram á fimmtudaginn í París, þar sem ætlunin er að safna fimm milljörðum Bandaríkjadala í aðstoð og lán til endurbyggingar í Líbanon eftir þá miklu eyðileggingu sem átök Ísraels og Hizbollah-samtakanna í sumar höfðu í för með sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×