Erlent

Framsalsáætlun CIA fyrir rétti

Réttur í Mílanó hóf á þriðjudag vitnaleiðslur til að skera úr um hvort lögsækja beri 26 Bandaríkjamenn og fimm Ítala fyrir mannrán á múslímaklerki grunuðum um hryðjuverkatengsl árið 2003.

Staðfest hefur verið að allir Bandaríkjamennirnir utan einn eru starfsmenn leyniþjónustunnar CIA, og allir Ítalirnir eru ítalskir leyniþjónustumenn.

Engin niðurstaða fékkst og verða næstu vitnaleiðslur haldnar 29. janúar.

Armando Spataro sakskóknari hefur leitt rannsóknina sem varpar ljósi á sérstæða framsalsáætlun CIA þar sem grunaðir hryðjuverkamenn eru fluttir til þriðja lands þar sem gagnrýnendur segja að þeir sæti pyntingum í sumum tilvikum.

Einn Bandaríkjamannanna, Robert Seldon Lady, er ósáttur við að málið sé tekið fyrir hjá dómstólum og vill að pólitísk lausn verði fundin þess í stað.

Lögmenn Nicolo Pollari, sem var háttsettur yfirmaður í ítölsku leyniþjónustunni, hyggjast fá Romano Prodi forsætisráðherra og Silvio Berlusconi, forvera hans, ásamt núverandi og fyrrverandi varnarmálaráðherra á vitnalista.

Spataro hefur beðið Prodi um að óska framsals Bandaríkjamannanna en hefur ekki fengið svar. Fyrri ríkisstjórn Berlusconis, sem átti í nánu samstarfi við valdhafa í Washington, hafði áður neitað sömu bón.

CIA hefur neitað að tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×