Erlent

Leiði heiminn inn í nýja tíma

Þjóðir Evrópu verða að breyta orku-neysluháttum sínum og leiða heiminn inn í „nýja tíma sem taka við af tímum iðnbyltingarinnar", sagði Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við kynningu á metnaðarfullri áætlun um það hvernig aðildarríkin geta farið að því að verða minna háð innfluttri olíu og gasi og minnkað losun gróðurhúsalofttegunda.

Í áætluninni, sem er afrakstur meira en árslangrar vinnu embættismanna framkvæmdastjórnarinnar í samráði við sérfræðinga og fulltrúa stjórnvalda aðildarríkjanna, er kveðið á um ný markmið um orkusparnað, þróun endurnýjanlegra orkugjafa svo sem vindorku og lífræns eldsneytis, og auknar rannsóknir á því hvernig draga má úr losun kolefnalofttegunda vegna brennslu á hefðbundnu eldsneyti, einkum og sér í lagi á kolum.

En í áætluninni er sneitt hjá því að segja hvort æskilegt sé að nýta kjarnorku í ríkari mæli. Hverju aðildarríki er látið eftir að taka afstöðu til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×