Erlent

Bush leggur fram áætlun

Bandarískir hermenn í Bagdad Þeir fá liðsauka ef Bush fær sínu framgengt.
fréttablaðið/AP
Bandarískir hermenn í Bagdad Þeir fá liðsauka ef Bush fær sínu framgengt. fréttablaðið/AP

George W. Bush Bandaríkjaforseti gerði í nótt grein fyrir nýrri Íraksstefnu sinni, sem hann hefur haft í smíðum allt frá því í haust þegar ljóst varð að fyrri stefna hafði kostað Repúblikanaflokkinn meirihlutastöðu sína á Bandaríkjaþingi.

Í gær var einnig fastlega reiknað með því að Bush myndi í ræðu sinni viðurkenna að alvarleg mistök hefðu verið gerð í Írak, ekki síst með því að láta Íraksstjórn komast upp með að leyfa vígasveitum bæði súnní-múslíma og sjía að leika lausum hala í Bagdad.

Bandarískir fjölmiðlar höfðu skýrt frá því í gær að Bush hyggist í nokkrum áföngum fjölga bandarískum hermönnum um 21.500 í Írak. Flestir þeirra verði sendir til höfuðborgarinnar Bagdad, þar sem meiningin er að stöðva eftir föngum átök milli súnnía og sjía, en 4.000 hermenn fari til Anbar-héraðs þar sem ástandið hefur einnig verið afar slæmt. Þá er meiningin að bandarískir hermenn gangi til liðs við íraskar öryggissveitir í því skyni að þjálfa þær, svo þær geti síðar meir tekið við af bandaríska hern-um. Enn fremur hyggst Bush veita um einum milljarði dala til þess að efla efnahag Íraks.

Óvíst er hvort honum takist að sannfæra Demókrataflokkinn, sem nú fer með meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings, um þessa nýju stefnu sína.

Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni, er staðráðin í að láta þingið greiða atkvæði um það hvort fjölgað verði í herliðinu í Írak. Þá ætla leiðtogar demókrata í öldungadeildinni að fá einhverja repúblikana í lið með sér til að lýsa andstöðu gegn því að fjölgað verði í herliðinu.

Íraksstríðið hefur nú staðið yfir í nærri fjögur ár og átökin harðna jafnt og þétt. Mannfallið á síðasta ári varð meira en nokkru sinni og nú allra síðustu daga hafa heiftarlegir bardagar geisað í höfuðborginni Bagdad.

Á þriðjudaginn börðust bæði Bandaríkjamenn og hermenn sjía-stjórnarinnar við súnní-múslíma í Haífa-stræti í Bagdad og týndu þar fimmtíu manns lífinu, allt saman súnníar.

Nouri al-Maliki Íraksforseti boðaði fyrr í mánuðinum hertar aðgerðir í Bagdad til að draga úr átökum þar í borginni og nú í vikunni sögðu íraskir ráðamenn að fyrstu áfangar þessara aðgerða væru nú þegar komnir til framkvæmda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×