Dómsmálaráðherra Danmerkur vill að lögreglan leiti oftar á fólki, á götum úti, til þess að kanna hvort það beri á sér hnífa, eða önnur vopn.
Í lögum sem sett voru í Danmörku fyrir tveimur árum, er lögreglunni gefin heimild til þess að leita á fólki að hnífum, á vissum svæðum, án þess að sérstakur grunur leiki á um vopnaburð. Lögreglan hefur semsagt heimild til þess að taka stikkprufur á götum úti.
Viðurlögin eru ströng. Í fyrsta skipti sem menn eru teknir með hníf fá þeir sekt upp á þrjátíu til fimmtíuþúsund krónur. Ef menn eru gripnir aftur, fara þeir í fangelsi.
Lenu Espersen, dómsmálaráðherra, þykir sem lögreglan nýti sér ekki þessar heimildir nægilega oft, og hefur sent öllum lögreglustjórum landsins bréf, þar sem hún hvetur þá til þess að leita oftar.