Erlent

Ísraelar notuðu jarðsprengjur í Líbanon í sumar

Bosníski sprengjusérfræðingurinn  Damir Paradzik missti neðan af báðum fótum á föstudaginn.
Bosníski sprengjusérfræðingurinn Damir Paradzik missti neðan af báðum fótum á föstudaginn. MYND/AP

Nú er talið fullvíst að Ísraelskir hermenn hafi komið fyrir jarðsprengjum þegar þeir voru í Líbanon í sumar en þessu hafa Ísraelar staðfastlega neitað. Tveir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna stigu á jarðsprengjur á föstudaginn á svæði sem hafði verið hreinsað af jarðsprengjum eftir að Ísraelsher yfirgaf Líbanon árið 2000.

Sprengjuleitarmennirnir voru sendir á staðinn eftir að geitahirðir tilkynnti að ein af geitunum hans hefði stigið á klasasprengju, en þær eru dreifðar um allt Suður-Líbanon. Sprengjusérfræðingarnir höfðu augun hjá sér og gættu þess að stíga ekki á klasasprengjur en vöruðu sig ekki á jarðsprengjum sem lágu grafnar í jörðu, þar sem slíkt átti ekki að finnast þarna lengur. Báðir misstu fæturna neðan við hnén.

Þetta eru fyrstu sönnunargögnin sem styðja við ásakanir á hendur Ísraelum að þeir hafi skilið eftir sig jarðsprengjur í sumar. Í gær var annað lið sprengjusérfræðinga sent á staðinn og þá missti einn breskur sprengjusérfræðingur neðan af fæti þegar hann steig á jarðsprengju.

Yfirmaður sprengjuhreinsunar Sameinuðu þjóðanna í Suður-Líbanon sagði að Ísraelum bæri siðferðisleg skylda til að láta vita af því hvar þeir skyldu eftir sprengjur, hverrar tegundar og í hvaða magni þær væru. Þetta hefðu þeir hins vegar ekki gert eftir sumarið, þó að sprengjusérfræðingar Sameinuðu þjóðanna hafi þrábeðið um það.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×