Erlent

300 Bretar vilja geislarannsókn eftir dauða njósnara

Alexander Litvinenko
Alexander Litvinenko MYND/AP

300 manns hafa leitað til heilbrigðisyfirvalda í Bretlandi eftir að í ljós kom að eitrað var fyrir rússneska njósnaranum Litvinenko með geislavirku póloníumi í byrjun mánaðarins. Fólkið verður sett í rannsókn öryggisins vegna en ólíklegt er talið að geislavirkni sem fundist hefur á sushi-veitingastaðnum þar sem hann át, hafi haft áhrif á aðra í umhverfinu.

Auk veitingastaðarins þar sem talið er að eitrað hafi verið fyrir Litvinenko, fundust leifar af geislavirkni á hóteli þar sem hann kom daginn sem eitrað var fyrir honum og á heimili hans í Norður-London.

Lögregla segir þetta í fyrsta skipti sem vitað sé til að póloníum hafi verið notað til að eitra fyrir manni, í það minnsta í Bretlandi. Lögregluyfirvöld vilja nú umfram allt komast að því hvernig efninu var smyglað til landsins eða hvernig það komst í hendur illvirkja í landinu.

Póloníum er sjaldgæft frumefni sem yfirleitt verður til í kjarnakljúfum. Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi segja hins vegar að ógnvænleg eitrunaráhrifin sem drógu Litvinenko til dauða séu afar ósennileg nema þegar efnið hafi borist inn í meltingarveg, öndunarveg eða borist inn í blóðrásina í gegnum sár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×