Erlent

Átök á milli Hamas og Fatah á heimastjórnarsvæðum í morgun

Liðsmaður í Fatah-hreyfingunni skýtur af byssu sinni á Hamas-liða í Ramallah á Vesturbakkanum í morgun.
Liðsmaður í Fatah-hreyfingunni skýtur af byssu sinni á Hamas-liða í Ramallah á Vesturbakkanum í morgun. MYND/AP

Liðsmenn Hamas saka Fatah-hreyfinguna um að hafa sýnt Ismail Haniyeh, forsætisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar, banatilræði við landamærin að Gaza í gærkvöld. Til átaka kom á milli liðsmanna Hamas og Fatah á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna í morgun.

Haniyeh var að koma frá Egyptalandi með um tvo milljarða íslenskra króna í farteskinu sem hann hafði safnað á ferðalagi sínu. Ísraelar lokuðu fyrst landamærunum og fengust ekki til að opna þau aftur nema að Haniyeh skildi peningana eftir í Egyptalandi.

Þegar hann var svo kominn yfir til Gaza tók ekki betra við. Heiftarlegur skotbardagi braust út á milli lífvarða Haniyeh og vopnaðra manna, tengdum Fatah-hreyfingu Mahmoud Abbas forseta. Einn lífvarðanna beið bana og fimm særðust, þar á meðal sonur forsætisráðherrans. Haniyeh og menn hans komust undan í bíl við ramman leik.

Í yfirlýsingu frá Hamas í morgun er fullyrt að um morðtilraun hafi verið að ræða sem Mohammad Dahlan, fyrrverandi innanríkisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar, hefði skipulagt. Grunnt hefur verið á því góða með fylkingununum að undanförnu, sérstaklega eftir að þrír synir háttsetts Fatah-liða voru myrtir í byrjun vikunnar.

Búist er við að ólgan á herteknu svæðunum muni aukast enn frekar vegna árásarinnar og ásakana Hamas. Raunar sáust merki um það strax í morgun því þá kom til byssubardaga á milli liðsmanna Hamas og Fatah, bæði á Vesturbakkanum og Gaza.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×