Erlent

Fékk sendan geitshaus vegna slaks gengis Palermo

Íþróttastjóra ítalska knattspyrnuliðsins Palermo á Sikiley hefur væntanlega brugðið á aðfangadag þegar pósturinn kom með pakka heim til hans. Í honum reyndist haus af geit og telja yfirvöld líklegt að um hótun sé að ræða þar sem Palermo hefur ekki gengið vel að undanförnu.

Liðið var fram af hausti með í baráttunni um ítalska meistaratitilinn en hefur gengið illa í síðustu leikjum og dregist aftur úr efstu liðum. Þykir sendingin um margt minna á atriði úr mafíumyndinni Guðförnum þar sem hestshaus kom við sögu en engum sögum fer af því hvort aðilar úr ítölsku mafíunni, sem á rætur sínar að rekja til Sikileyjar, hafi staðið fyrir gjörningnum.

Íþróttastjórinn segir í samtali við íþróttablaðið La Gazzetta dello Sport í dag að hann hafi aldrei áður fengið hótanir í starfi en að liðið hafi yfir konuna hans þegar hann opnaði pakkann.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ítalskir knattspyrnuáhangendur láta til sín taka á þennan hátt því árið 1999 fékk forseti Reggina sendan nautshaus með hótunarbréfi þegar liðið átti í harðri fallbaráttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×