Erlent

Stríðsátök magnast í Sómalíu

Stríðsátök mögnuðust enn í Sómalíu (IMK) í dag þegar Eþíópíuher gerði loftárásir á herflugvelli sem íslamistar halda. Eþíópíumenn styðja sómölsku ríkisstjórnina gegn árásum byssumanna sem taldir eru tengjast Al Kaída-samtökunum.

Þúsundir flóttamanna leita nú hælis í hafnarborginni Kismayo í sunnanverðri Sómalíu, á flótta undan stríðsátökum og flóðum. Eins og venjulega, þá eru það hinir fátækustu sem verða fyrir mestum búsifjum vegna átakanna. Ekki var á það bætandi að þarna eru nú mestu flóð í hálfa öld.

Íslamistar halda Kismayo, sem er þriðja stærsta borg Sómalíu, skammt frá landamærunum við Kenýa. Í síðustu viku sáu íbúar borgarinnar fjölda arabískra vígamanna stíga í land úr skipum í höfninni. Stjórnvöld segja að um átta þúsund vígamenn hafi komið til Sómalíu undanfarið til að styðja áhlaup hreyfingar sem kallar sig íslamska dómstólaráðið, sem berst gegn sómölsku ríkisstjórninni. Hún brást við með því að lýsa yfir því að landamæri Sómalíu væru lokuð en hefur í raun engin ráð til að tryggja slíka lokun. Eþíópíuher gerði loftárásir á tvo flugvelli sem íslamistar halda, við höfuðborgina Mogadishu og um eitt hundrað kílómetra vestur af borginni. Stjórnvöld í Eþíópíu segja að Al Kaída samtökin, sem stóðu að baki árásunum á tvíturnana í New York, sé á bak við hreyfingu íslamista í Sómalíu. Sameinuðu þjóðirnar segja að stjórnir tíu ríkja styðji stríðandi fylkingar í Sómalíu með vopnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×