Erlent

48 ára karlmaður handtekinn í Ipswich

Breska lögreglan hefur handtekið annan mann vegna morða á fimm vændiskonum í Suðaustur-Englandi. Þrjátíu og sjö ára karlmaður var handtekinn vegna málsins í gær.

Maðurinn sem handtekinn var í morgun er fjörutíu og átta ára. Hann var tekinn höndum í Ipswich en morðin hafa verið framin þar og í næsta nágrenni. Lögregla hefur ekki viljað gefa upp hvað maðurinn heitir en hann er grunaður um að hafa átt þátt í morðunum.

Hinn þrjátíu og sjö ára gamli Tom Stephens var handtekinn í gærmorgun. Mennirnir tveir verða yfirheyrðir í dag.

Lögregla hefur heimild til að halda Stephens án ákæru fram á fimmtudagskvöld en þá verður að sleppa honum, ákæra eða fara fram á gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna. Sérfræðingar lögreglu hafa rannsakað heimili Stephens og móður hans gaumgæfilega síðan í gær.

Lögregla telur óyggjandi að morðin á konunum fimm tengist, enda líkum aðferðum beitt og öll morðin framin á innan við tveimur vikum. Stephens hefur viðurkennt að hafa þekkt konurnar en neitar sök. Lögregla hafði yfirheyrt Stephens nokkru áður en hann var handtekinn og hafði fengið aðgang að tölvu hans til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×