Innlent

Úrskurðar um vitnisburð að vænta fyrir hádegi

MYND/365

Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur kveður upp úr um það klukkan 11. 45 hvort Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Jón H. B. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, skuli bera vitni fyrir dómnum í tengslum við ákæru fimm aðila tengdum Baugi um að þeir séu vanhæfir til að fara með ákærur á hendur Baugsmönnum vegna meintra skattabrota þeirra.

Málið var tekið fyrir í morgun, en í þessum anga Baugsmálsins hefur hluverkaskipanin snúist við þar sem Baugsmenn eru í hlutverki sóknaraðila og yfirmenn ríkislögreglustjóra verjast.

Lögfræðingur Baugsmanna sagði í morgun fyrir dómi að ummæli Haraldar Johannessen á blaðamannafundi 12. október árið 2005 gæfu til kynna að yfirmenn efnahagsbrotadeildar hefðu fyrir fram myndað sér skoðun á sekt Baugsmanna. Haraldi og Jóni H. B. Snorrasyni væri því skylt að koma fyrir dóm og svara spurningum um meint vanhæfi sitt við rannsókn á meintum skattabrotum Baugsmanna.

Jón H.B. Snorrason sagði hins vegar að það gengi ekki að snúa málinu þannig að rannsóknaraðili bæri vitni í málinu. Þá benti hann á að blaðamaður væri ábyrgur fyrir þeim ummælum sem höfð hefðu verið eftir þeim í Blaðinu.

Sem fyrr segir kveður dómari upp úrskurð kl. 11.45 hvort Jóni og Haraldi beri að koma fyrir dóminn og gefa skýrslu en þess ber að geta að þeim úrskurði má áfrýja til Hæstaréttar og til þess hafa báðir aðilar þrjá daga. Það er því ekki víst að málið verði leitt til lykta í dómssölum í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×