Fótbolti

Hargreaves spilar ekki fyrr en eftir áramót

Owen Hargreaves
Owen Hargreaves NordicPhotos/GettyImages

Enski landsliðsmaðurinn Owen Hargreaves hjá Bayern Munchen segist ekki muni spila meira með liði sínu á árinu, en hann er að jafna sig eftir fótbrot í september. Hann útilokar ekki að ganga í raðir Manchester United í janúar.

"Fyrri helmingi tímabilsins er þegar að verða lokið og ég held að sé betra að ég reyni ekki að snúa aftur fyrr en eftir vetrarhlé," sagði Hargreaves, en Bayern á eftir að spila þrjá deildarleiki, einn Meistaradeildarleik og einn bikarleik áður en liðið fer í hefðbundið vetrarhlé sem gert er í þýsku úrvalsdeildinni. Hann hefur enn ekki útilokað að fara til heimalands síns á nýja árinu - en hann er eini enski landsliðsmaðurinn sem aldrei hefur spilað á Englandi.

"Maður veit aldrei, því ótrúlegustu hlutir geta gerst yfir veturinn. Lífið er fullt af uppákomum sem koma á óvart," sagði Hargreaves. Talið er að Manchester United sé tilbúið að bjóða allt að 20 milljónir punda í leikmanninn í janúar eftir að Bayern hafnaði 15 milljón punda tilboði í hann í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×