Innlent

Einum lið af 19 vísað frá

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í dag fyrsta ákærulið af 19 í Baugsmálinu frá dómi. Sá ákæruliður snýr að sölu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á Vöruveltunni til Baugs. Dómurinn hafnaði hins vegar kröfu verjenda um að vísa hinum átján ákæruliðunum frá dómi.

Sigurður Tómas Magnússon, sérstakur saksóknari í málinu, segir það ekki málinu til framdráttar að þessum ákærulið hafi verið vísað frá dómi. Hann telur líklegt að úrskurðurinn verði kærður til Hæstaréttar.

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, segist hafa búist við þessari niðurstöðu. Ákæruliðurinn sem nú var vísað frá dómi sé alvarlegasti ákæruliðurinn gegn Jóni Ásgeiri, þar sem hann sé ákærður um fjársvik. Önnur ákæruatriði snúist fyrst og fremst um formbrot. Gestur segir kjarna málsins að saksóknara gangi illa að lýsa meintum brotum. Það sé ekki vegna þess að starfsmenn embættisins kunni ekki til verka, en viðfangsefnið sé að setja saman lýsingu á verknaði, sem sé ekki refsiverður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×