Erlent

Tuttugu ár frá morðinu á Olof Palme

Olof Palme, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar.
Olof Palme, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar.

Í kvöld verða nákvæmlega tuttugu ár síðan Olav Palme, þáverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, var myrtur í miðborg Stokkhólms. Rannsókn á morðinu er komin í fullan gang á ný og margir verða yfirheyrðir vegna þess á næstunni.

Palme var að koma úr kvikmyndahúsi rétt fyrir miðnætti þegar hann var skotinn tvisvar sinnum í magann og lést á leiðinni á sjúkrahús. Kona Palme fékk skot í bakið og slasaðist alvarlega. Þó að tveir lífverðir hafi jafnan gætt Palme í opinberum erindagjörðum kaus hann að njóta ekki starfskrafta þeirra þegar hann sinnti eigin erindagjörðum.

Enginn hefur verið sakfelldur fyrir morðið á Palme og morðvopnið hefur aldrei fundist, þrátt fyrir eina umfangsmestu lögreglurannsókn sem gerð hefur verið. Fjölmargir verða yfirheyrðir á ný eftir að nýjar upplýsingar um morðið á Olof Palme komu fram í sænskri heimildamynd sem sýnd var um helgina. Í myndinni kom fram að sænskur lögreglumaður væri flæktur í málið og að Palme hefði verið myrtur í misgripum.

Palme er minnst sem hugsjónamanns sem barðist fyrir verkalýðinn og lét verulega til sín taka í málefnum fátækari ríkja heims. Þá var hann líka mikill friðarsinni og barðist fyrir endalokum Víetnamstríðsins.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×