Serbneski viðskiptajöfurinn Milan Mandaric, sem nýverið seldi hlut sinn í úrvalsdeildarfélaginu Portsmouth, segist vera að íhuga að kaupa annað félag á Englandi og viðurkennir að um helmings líkur séu á að hann geri tilboð í Leicester City.
"Ef ég geri mig líklegan til að kaupa annað félag á Englandi, væri Leicester klárlega eitt þeirra sem kæmu til greina. Það er gott félag, með góða stuðningsmenn og góðan heimavöll - og ekki skemmir fyrir að félagið hefur verið viðloðandi úrvalsdeildina undanfarin ár.
Ég myndi segja að væru um það bil 80% líkur á því að ég sneri aftur í enska boltann og á sama skala væru líkurnar á því að ég tæki við stjórn félags í fyrstu deildinni um það bil 80-90% Enn á margt eftir að koma í ljós, en ég held að séu um helmingslíkur á því að ég kaupi mig inn í Leicester," sagði Mandaric, sem átti stóran þátt í að rífa Portsmouth upp í úrvalsdeildina á sínum tíma.
Því er haldið fram að forráðamenn Milwall og Bornemouth hafi leitað til Mandaric og boðið honum að kaupa, en hann á að hafa neitað þessum félögum.