Fótbolti

Draumur í dós að fá Sigurð

Sölvi Geir Ottesen er annar íslenskra leikmanna hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu Djurgården. Hinn er Kári Árnason en báðir voru þeir keyptir frá Víkingi árið 2004 þegar Sigurður Jónsson var þjálfari félagsins. Hann var í gær ráðinn aðalþjálfari Djurgården og hittir hann því fyrir gamla lærisveina sína.



„Þetta er alger draumur í dós að fá Sigga til félagsins,“ sagði Sölvi Geir við Fréttablaðið í gær. „Ég þekki hann mjög vel og hann hefur þjálfað mig áður. Vissulega kom þetta okkur talsvert á óvart enda held ég að í fyrstu hafi hann búist við að taka að sér annars konar þjálfunarstarf innan félagsins. En þeir sem stjórna félaginu hafa örugglega fulla trú á honum og ég hef líka fulla trú á því að hann eigi eftir að standa sig mjög vel.“



Sölvi segir að Sigurður megi búast við allt öðru starfsumhverfi en þekkist hjá íslenskum félögum. „Hlutverk hans nú verður miklu stærra og annað en hingað til. En hann þekkir þetta líka sjálfur frá sínum eigin dögum sem atvinnumaður.“

Hann býst þó ekki við því að fá neina sérmeðferð hjá Sigurði. „Siggi verður ekkert frábrugðinn öðrum þjálfurum okkar nema að því leyti að hann þekkir okkur betur en okkar gömlu þjálfarar. Hann er fyrst og fremst góður þjálfari og fagmaður og mun ekki velja okkur Kára í liðið bara af því að við erum Íslendingar og þekkjum hann. Hann mun stilla upp sínu besta liði hverju sinni.“



Leikmönnum var tilkynnt um ráðningu Sigurðar á æfingu í gær. Sigurður var sjálfur ekki viðstaddur þar sem hann er nú staddur hér á landi. Sölvi segir að leikmenn hefðu spurt sig mikið út í nýja þjálfarann. „Auðvitað er gaman að fá hann til félagsins. Hann er gamall þjálfari okkar og góður vinur.“- esá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×