Fótbolti

Hammarby ræður þjálfara til starfa

Sænska úrvalsdeildarliðið Hammarby réð í gær hinn 33 ára gamla Tony Gustavsson sem nýjan aðalþjálfara liðsins. Hann tekur við starfinu að tímabilinu loknu en tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni. Tveir Íslendingar eru hjá liðinu, þeir Pétur Marteinsson og Gunnar Þór Gunnarsson.



Pétur hefur áður sagt við Fréttablaðið að hann ætli að bíða, þar til nýr þjálfari verði ráðinn, með að taka ákvörðun um hvort hann framlengi samninginn sinn við félagið um tvö ár eða haldi heim á leið. Ákvörðun hans verður að vænta bráðlega en hann hefur helst verið orðaður við KR hér heima.

Hammarby er sem stendur í fjórða sæti deildarinnar með 37 stig og á ekki lengur möguleika á sænska meistaratitlinum en liðið hóf mótið vel og var lengi vel í efsta sæti deildarinnar.



Gustavsson er ekki nema 33 ára gamall og er fyrsti þjálfarinn í sænsku úrvalsdeildinni sem hefur menntað sig í fótboltaþjálfun á háskólastigi. Hann stýrði síðast liði Degerfors og hefur gert það í tvö ár. Sem leikmaður náði hann aldrei miklum frama og lék lengst af með neðrideildarliðum. Árið 2004, þá sem aðstoðarþjálfari hjá Degerfors, hjálpaði hann liðinu að komast upp í sænsku 1. deildina.

Þess má einnig geta að Pétur Marteinsson er þremur mánuðum eldri en Gustavsson.- esá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×