Íslenski boltinn

Knattspyrnukappinn Hafþór Ægir Vilhjálmsson:

Skagamaðurinn Hafþór Ægir Vilhjálmsson fékk í gær samningstilboð frá sænska félaginu Norrköping en ÍA og Norrköping höfðu áður komist að samkomulagi um greiðslu og því er það undir Hafþóri komið hvort hann taki tilboðinu og fari utan eða spili áfram á Íslandi.

„Þetta samningstilboð er svipað því sem ég átti von á að fá. Nú er boltinn hjá mér og ég er óákveðinn í augnablikinu," sagði Hafþór Ægir seinni partinn í gær en hann er staðráðinn í því að spila ekki áfram með ÍA. Eins og Fréttablaðið hefur áður greint frá hefur Hafþór Ægir ákveðið að taka hagstæðu samningstilboði frá Val fari hann ekki utan en tilboð Vals er ekki síðra en tilboð sænska liðsins, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

„Ég hef ekkert mikinn tíma til að taka ákvörðun en ég mun svara Norrköping fljótlega. Það verður ekkert farið í að gera gagntilboð. Annað hvort tek ég þessu tilboði þeirra eða hafna því. Ég held að það sé ekki hægt að fá betri samning frá slíku félagi en þetta. Staðan er mjög tvísýn og ég fer ítarlega yfir málið áður en ég tek ákvörðun," sagði Hafþór Ægir, sem vill ekki gera sömu mistök og margir íslenskir knattspyrnumenn hafa gert.

„Mér finnst allt of margir leikmenn fara of snemma út og þá til félaga þar sem þeir fá ekkert að spila og taka því ekki framförum sem knattspyrnumenn, sem á víst að vera tilgangurinn. Ég vil því vanda mig við þessa ákvörðun og vonandi tek ég rétta ákvörðun," sagði Hafþór Ægir Vilhjálmsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×